7 research outputs found

    Erlend gagnrýni á íslensku bankana árið 2006. Viðvaranir virtar að vettugi

    No full text
    Þrír stærstu íslensku bankarnir urðu gjaldþrota árið 2008 og komu íslenska hagkerfinu í verulegan vanda. Á árinu 2006 hafði verið varað við í hvað stefndi. Viðfang þessarar ritgerðar er að greina þá gagnrýni sem kom fram á hendur bönkunum árið 2006, hversu réttmæt hún reyndist, hver voru viðbrögð bankanna og ríkisins, ásamt afleiðingum og aðstæðum sem leiddu til falls íslensku bankanna. Skýrslur erlendra og innlendra sérfræðinga sem um málið hafa fjallað verða lagðar til grundvallar og hagfræðikenningum fjármálamarkaða gerð skil. Bankarnir féllu af sömu ástæðum og þeir voru gagnrýndir fyrir árið 2006. Krísan tveimur árum síðar var einungis stærri og breyttist lausafjárkreppan í alheimskreppu. Íslensku bönkunum reyndist ógerlegt að nálgast nægjanlegt lausafé til starfrækslu sinnar og áttu bankarnir í gífurlegum trúverðugleikavanda fyrir að hafa ekki brugðist betur við veikleikum sínum þegar tími var til stefnu. Erlenda gagnrýnin var að mörgu leyti réttmæt. Helsta gagnrýnin á bankana var hve mikið þeir reiddu sig á fjármögnunarmarkaði, viðkvæmni þeirra fyrir markaðsáhættu, vafi um gæði útlánasafns bankanna og gengisáhætta fjármagns reyndust allar vera réttar. Bankarnir brugðust við sumum þáttum gagnrýninnar en létu aðra sem vind um eyru þjóta. Ef til vill er ekki hægt að skrifa allt sem miður fór á reikning bankanna, bankaeftirlit brást og reglugerðir reyndust ófullnægjandi. Erlend lánsmatsfyrirtæki brugðust eftirlitshlutverki sínu og vanmátu ábyrgð íslenska ríkisins og kerfisbundna áhættu. Bankarnir urðu of stórir í hlutfalli við hagkerfi Íslands. Ríkisvaldið hafði leyft þeim að vaxa um of, í stað þess að sníða þeim stakk eftir vexti. Seðlabankinn brást hlutverki sínu sem lánveitandi til þrautavara, gjaldeyrisforði landsins dugði skammt til að styðja við bakið á bönkunum þegar á reyndi og mistókst seðlabankanum það hlutverk sitt að halda fjármálaóstöðugleika fjarri

    Dagþjónusta á Akureyri fyrir einstaklinga með langvinna sjúkdóma af líkamlegum toga

    No full text
    Bakgrunnur: Hlutfall þeirra sem glíma við langvinna sjúkdóma í heiminum fer ört vaxandi og hefur þjónusta við þá ekki náð að haldast í hendur við þjónustuþörf. Rannsóknir hafa sýnt að dagþjónusta getur haft jákvæð áhrif á líf einstaklinga, aukið á þátttöku þeirra í daglegu lífi og fjölgað hlutverkum, en einstaklingar með langvinna sjúkdóma upplifa oft breytingar á þessum þáttum. Tilgangur rannsóknarinnar er að svara eftirfarandi rannsóknarspurningum: 1. Hvernig er daglegu lífi einstaklinga á Akureyri með langvinna sjúkdóma af líkamlegum toga háttað með tilliti til áhugamála, vinnu og náms? 2. Hvaða þjónustu og hversu mikla fá einstaklingar með langvinna sjúkdóma af líkamlegum toga á Akureyri? 3. Hafa einstaklingar með langvinna sjúkdóma af líkamlegum toga áhuga á að nýta sér dagþjónustu á Akureyri? 4. Hvernig vilja þeir einstaklingar, sem hafa áhuga á að nýta sér dagþjónustu, að hún sé uppbyggð og í hversu miklum mæli vilja þeir að hún sé? Aðferð: Þátttakendur voru 28 einstaklingar sem greinst hafa með langvinna sjúkdóma af líkamlegum toga á aldrinum 40 ára til 66 ára og bjuggu á Akureyrarsvæðinu, 18 konur og 10 karlar. Notast var við megindlega rannsóknaraðferð og var spurningalisti lagður fyrir þátttakendur. Upplýsingarnar voru settar inn í gagnagrunn sem útbúinn var fyrir rannsóknina þar sem rýnt var í breytur og þær bornar saman. Niðurstöður: Flestir þátttakendur voru að nýta sér þjónustu frá sveitarfélaginu, heimahjúkrun, heimaþjónustu eða aðra þjónustu. Fæstir voru í vinnu eða námi en margir áttu sér einhver áhugamál sem þeir sinntu þó mismikið. Fram kom að 20 af 26 einstaklingum, sem gáfu svör, höfðu áhuga á að nýta sér dagþjónustu á Akureyri ef hún væri í boði og voru flestir tilbúnir að greiða fyrir hana. Eins kom fram áhugi á að bjóða aðstandendum að taka þátt í starfsemi dagþjónustu. Ályktun: Niðurstöðurnar sýndu að á Akureyrarsvæðinu væri hópur einstaklinga með langvinna sjúkdóma sem hefði áhuga á að nýta sér dagþjónustu. Því gæti rannsóknin haft fræðilegt og hagnýtt gildi fyrir þróun þjónustuúrræða fyrir fullorðna einstaklinga með langvinna sjúkdóma af líkamlegum toga og eins til að veita hugmyndir að uppbyggingu við þróun þjónustunnar
    corecore