2 research outputs found

    Tengsl áfallastreitueinkenna í kjölfar fæðingar við algengi og upplifun brjóstagjafar: Lýsandi þversniðsrannsókn

    No full text
    Bakgrunnur: Áfallastreitueinkenni í kjölfar fæðingar geta haft neikvæð áhrif á heilsu móður, tengslamyndun og brjóstagjöf. Brjóstamjólk er ákjósanlegasta fæðan fyrir nýbura og hefur heilsufarslegan ávinning fyrir mæður og börn. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin ráðleggur að börn séu eingöngu á brjósti til sex mánaða aldurs og áfram með fjölbreyttri fæðu til tveggja ára aldurs eða lengur. Sömu ráðleggingar eru hérlendis og brjóstagjöf í hávegum höfð en algengi brjóstagjafar þó ekki eins hátt og ætla mætti. Tilgangur: Markmið þessarar rannsóknar var að skoða tengsl áfallastreitueinkenna í kjölfar fæðingar við algengi og upplifun brjóstagjafar 6–12 vikum eftir fæðingu. Samanburðarhópur voru konur sem ekki höfðu áfallastreitueinkenni í kjölfar fæðingar. Aðferð: Rannsóknin er lýðgrunduð þversniðsrannsókn og notast var við gögn úr stærri alþjóðlegri rannsókn. Konur fengu senda könnun í tölvupósti 6–12 vikum eftir fæðingu á tímabilinu maí til september 2022 og var lokaúrtak rannsóknarinnar 685 konur. Skýribreyta rannsóknarinnar var áfallastreitueinkenni í kjölfar fæðingar, metin með mælitækinu City Birth Trauma Scale, og útkomubreyturnar tvær, algengi og upplifun brjóstagjafar. Bakgrunns breyturnar voru fimm, aldur, bæri, hjúskaparstaða, menntun og fæðingarmáti. Unnin var lýsandi tölfræði úr gögnunum ásamt því að notast var við kí-kvaðrat marktektarpróf til að skoða tengsl milli breyta. Niðurstöður: Alls voru 5,7% kvenna með áfallastreitueinkenni í kjölfar fæðingar og 87,2% kvenna með barn sitt á brjósti. Hlutfall kvenna með neikvæða brjóstagjafaupplifun var 5,3%. Konur með áfallastreitueinkenni í kjölfar fæðingar voru síður líklegar til að hafa barn sitt á brjósti og líklegri til að hafa neikvæða brjóstagjafaupplifun heldur en konur án áfallastreitueinkenna í kjölfar fæðingar. Ályktanir: Konur með áfallastreitueinkenni í kjölfar fæðingar eru lítill en mikilvægur hópur kvenna sem þarf að huga sérstaklega að eftir fæðingu og virðast hafa þörf á betri stuðning við brjóstagjöf. Ekki er skimað markvisst fyrir áfallastreitueinkennum í kjölfar fæðingar í dag en skoða þyrfti markvissar leiðir til að finna þær konur sem þörf hafa fyrir aukinn stuðning. Lykilorð: Áfallastreitueinkenni í kjölfar fæðingar, brjóstagjöf; algengi og upplifun, konur eftir fæðingu og ljósmóðurfræði.Rannsóknarsjóður Háskóla Ísland

    Continuity of midwifery care: Advantage and risk: A systematic review

    No full text
    Samfelld þjónusta ljósmæðra hefur mikið verið skoðuð undanfarin ár ásamt öðrum þjónustuformum. Mikið hefur verið skoðað hvaða þjónustuform barnshafandi konur og mæður kjósa helst og hvaða þættir þjónustunnar þeim finnast mikilvægir. Samfelld þjónusta hefur verið skilgreind á marga vegu en algengasta skilgreiningin er að þjónustan sé heildræn og veitt af sem fæstum fagaðilum og að þjónustan sé veitt innan sömu stofnunar með skipulagi og góðum samskiptum. Gæði þjónustu endurspeglast í ánægju þjónustuþega og hvernig þeim farnast. Algengast er að þjónustan sé samfelld hér á landi í gegnum meðgönguvernd og heimaþjónustu í sængurlegu en þá er fæðingin sjálf undanskilin. Í einhverjum tilfellum, eins og í fæðingarstofunni Björkin og á landsbyggðinni, hefur náðst nánast alger samfella. Tilgangur samantektarinnar var að varpa ljósi á hvernig samfelld þjónusta hefur gengið á Íslandi og voru önnur lönd notuð sem viðmið. Tilgangurinn var að skoða hvort samfelld þjónusta sé ákjósanlegasta þjónustuformið eða hvort önnur form henti betur. Skoðað var hvað barnshafandi konur og mæður vilja helst en einnig hvað ljósmæðrum finnst. Reynt var að svara rannsóknarspurningunni: „Hefur samfelld þjónusta áhrif á gæði þjónustunnar í barneignarferlinu?“. Notaður var leitarvefurinn Pubmed með leitarorðunum “continuity of care”, “midwifery”, “caseload”, “models of care”, “perinatal” og “quality”. Til að finna íslenskar greinar og rannsóknir var leitarvefurinn leitir.is notaður og leitarorðin „samfelld þjónusta“ og „ljósmóðurfræði“. Bókin “Midwifery Continuity of Care” (2. útgáfa) var mikið notuð. Tekið var viðtal við ljósmóður sem starfar á Björkinni til að fá innsýn í þeirra störf og skoðun þeirra á samfelldri þjónustu í barneignarferlinu. Góð þjónusta fyrir barnshafandi konur, nýorðnar mæður og börnin þeirra skiptir gríðarlega miklu máli fyrir útkomu bæði móður og barns. Rannsóknir sýndu að barnshafandi konur og nýorðnar mæður vildu hafa samfellu í þjónustunni og töldu það mikilvægan þátt. Þeim fannst mikilvægast að fá góðar upplýsingar um allt ferlið og að hlustað væri á þeirra skoðanir og þarfir. Ljósmæðrum fannst samfelld þjónusta vera lykilþáttur í góðri þjónustu. Sýnt hefur verið fram á að þjónustan getur komið vel út fjárhagslega. Komið hafa upp efasemdir meðal ljósmæðra, til dæmis um bindingu við starf, en rannsóknir hafa leitt í ljós að í raun eru minni líkur á kulnun í starfi hjá ljósmæðrum sem starfa í samfelldri þjónustu. Hægt er að álykta að samfelld þjónusta eykur gæði þjónustunnar og bætir útkomu móður og barns, starfsánægja ljósmæðra eykst og líkur á kulnun í starfi minnka. Skortur er á íslenskum samanburðarrannsóknum á þeim konum sem hljóta samfellda þjónustu og þeim sem hljóta hefðbundna þjónustu. Flestar rannsóknirnar útiloka áhættumeðgöngur og erfiðar fæðingar sem enda í bráðakeisara og því er hægt að álykta að það sé vanræktur hópur sem vert sé að rannsaka nánar
    corecore