Í þessari ritgerð er sjónum beint að mótun tímans í frásagnarheimi þriggja verka Virginiu Woolf, með það að markmiði að varpa ljósi á hin margvíslegu tímarými sem þar má finna. Kannaðar eru skáldsögurnar Jacob’s Room, Mrs. Dalloway og To the Lighthouse. Þær birtust á árabilinu 1922 til 1927 og marka ákveðin skil á ferli Woolf þar sem hún vék frá hefðbundnum frásagnarstíl fyrri sagna sinna og lagði áherslu á tilraunakennda, móderníska framsetningu þar sem frásögnin miðlar skynjun og hugsun persóna með beinni hætti til lesandans en almennt hafði tíðkast. Sökum þess eiga þessar þrjár skáldsögur það sameiginlegt að innihalda margslungin og persónuleg tímarými sem stuðla að því að gera lestur þeirra flóknari en ella, enn fleiri atriði þarf að hafa í huga, fleiri sjónarhorn, tilfinningar og skynjun ýmissa sögupersóna. Helst verður byggt á kenningum rússneska bókmenntafræðingsins Mikhails Bakhtíns um tímarými, en í ritgerð sinni „Form tíma og tímarýmis í skáldsögum“ sem fyrst kom út árið 1937 lagði Bakhtín grunninn að hugtakinu tímarými – sem byggist á innbyrðis samspili tíma og rýmis – og sýndi fram á mikilvægi þess í frásagnarrannsóknum. Greiningaraðferðirnar felast einkum í því að kanna hvernig tímaformgerðir birtast og tímarými myndast í frásögninni, einkum í tengslum við mótun aðalpersóna, en einnig hvernig þau hafa áhrif á lesturinn og þar með viðtökur þessara skáldsagna
Is data on this page outdated, violates copyrights or anything else? Report the problem now and we will take corresponding actions after reviewing your request.