Eftirfarandi greinargerð er lokaverkefni til B.Ed. prófs í leikskólakennarafræði frá Háskóla Íslands vorið 2020. Verkefnið fjallar um kjörþögli ungra barna og samanstendur af greinargerð og bæklingi. Kjörþögli er skilgreind sem kvíðaröskun og börn sem þjást af kjörþögli tala einungis í vissum félagslegum aðstæðum. Röskunin er afar sjaldgæf og þær fáu rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til þess að tíðni hennar sé um 1%. Greining á kjörþögli er vandasöm, meðal annars vegna þess að uppalendum ber oft ekki saman um hvernig barnið lætur af sér í vissum aðstæðum. Heima talar barnið jafnvel reiprennandi en talar á sama tíma lítið og jafnvel ekkert í leikskólanum og umhverfi hans. Í ljósi þess er mikilvægt að leikskólakennarar og starfsfólk leikskóla sé meðvitað um kjörþögli og hvaða úrræði henta best fyrir börn sem þjást af henni. Upplýsingum um kjörþögli á íslensku er einnig ábótavant. Helstu niðurstöður greinargerðarinnar sýna fram á alvarleika röskunarinnar og hvernig líðan barn með kjörþögli upplifir í þeim félagslegu aðstæðum sem því líður verst í. Helstu rannsóknir á úrræðum fyrir börn með kjörþögli sýna að til eru margslungin og nytsamleg verkfæri sem uppalendur geta nýtt sér. Því til viðbótar þarf þekkingu á kjörþögli að vera til staðar til þess að foreldrar og aðrir geti nýtt sér úrræðin. Upplýsingabæklingurinn er ætlaður foreldrum og öðrum uppalendum barna á leikskólaaldri með kjörþögli. Meginmarkmiðið með gerð hans er að safna grunnupplýsingum og meðferðarúrræðum saman á einn stað svo foreldrar geti nálgast slíkar upplýsingar á auðveldan máta. Kjörþögli getur haft slæm langtímaáhrif á barn ef það fær ekki rétta aðstoð. Góður skilningur á henni er grundvallaratriði og getur ef til vill leitt af sér áhrifaríkari leiðir hvað varðar úrlausnir á vandanum. Því fyrr sem tekið er á kjörþögli, því betri eru horfurnar fyrir framtíð barnsins. Í bæklingnum, sem finna má í Skemmu, er vitnað í greinargerðina þar sem starfsfólk leikskóla, foreldrar og aðrir uppalendur geta fengið ítarlegri upplýsingar um kjörþögli