Rannsókn á tengslum erfðabreytileika í og við genin TTN/CCDC141 við hjartsláttartruflanir í gáttum

Abstract

Inngangur: Víðtækar erfðamengisrannsóknir hafa fundið tengsl á milli 170 erfðabreytileika og gáttatifs en minna er vitað um erfðafræði annarra hjartsláttartruflana í gáttum. Nýlegar rannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar hafa gefið vísbendingar um tengsl erfðabreytileika á svæðinu TTN/CCDC141 við ýmsar hjartsláttartruflanir í gáttum. Markmið þessarar rannsóknar var að meta betur þessi tengsl. Efni og aðferðir: Við safngreindum upplýsingar úr víðtækri erfðamengisleit fyrir hjartsláttartruflanir í gáttum frá Íslandi, UK Biobank og Copenhagen Hospital Biobank en afmörkuðum okkur við svæðið TTN/CCDC141. Við könnuðum tengsl 8366 erfðabreytileika á svæðinu við fjórar hjartsláttartruflanir og notuðum Bonferroni leiðréttingu til að fá marktækniþröskuldinn 6,0×10-6 . Einnig skoðuðum við tengsl erfðabreytileika sem tengdust hjartsláttartruflunum við hjartalínuritsmælingar frá Landspítala og rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar. Niðurstöður: Við fundum tengsl við fjórar hjartsláttartruflanir í gáttum. Erfðabreytileikinn rs2288327 tengdist gáttatifi (P = 2,8 × 10-29, OR (e. odds-ratio, gagnlíkindahlutfall) = 1,11), rs10660645 tengdist sjúkum sínushnúti (P = 6,8 × 10-9 , OR = 1,13), rs13031826 tengdist gáttasleglarofi (= 2,65 × 10-17, OR = 1,23), rs10497529 tengdist ofansleglahraðtakti (P = 1,7 × 10-11, OR = 1,23) og einnig tengdist rs1873164 ofansleglahraðtakti (P = 1,4 × 10-12, OR = 1,22). Allir þessir breytileikar sýndu minna marktæk tengsl við aðra hjartsláttartruflun í gáttum, eina eða fleiri. Skilyrt greining sýndi hins vegar að þau tengsl voru afleiðing tengslaójafnvægis. Allir erfðabreytileikarnir höfðu tengsl við ýmsar hjartalínuritsmælingar, en tengslamynstrið var mismunandi á milli breytileikanna. Engin marktæk tengsl fundust milli þessara erfðabreytileika og háþrýstings, hjartavöðvakvilla, hjartabilunar og kransæðasjúkdóms, sem bendir til þess að áhrif á rafleiðni hjartans miðli tengslum erfðabreytileikanna við hjartsláttartruflanirnar, fremur en aðrir hjartasjúkdómar. Ályktanir: Við sýndum að það eru fimm erfðabreytileikar á svæðinu TTN/CCDC141 sem tengjast mismunandi hjartsláttartruflunum í gáttum og einnig hjartalínuritsmælingum sem mæla rafleiðni í hjartanu. Engu öðru svæði í erfðamenginu hefur verið lýst með víðtækri erfðamengisrannsókn sem hefur áhrif á svona margar mismunandi hjartsláttartruflanir í gáttum. Þessar niðurstöður kalla á frekari rannsóknir til að skilja betur áhrif þessa svæðis á rafleiðni í hjarta

    Similar works

    Full text

    thumbnail-image

    Available Versions