Á okkar tímum höfum við náð þvílíkum framförum á sviðum tækni og vísinda og við höfum aukið lífsgæði okkar til muna, sérstaklega á ákveðnum svæðum veraldar. Með aukinni hnattvæðingu höfum við tengst hvort öðru á hátt sem okkur gat einungis dreymt um áður. Samskipti heimshorna á milli eru eins einföld og að opna símann okkar og höfum við getað lært af menningu annarra í heiminum. En á kostnað hvers? Með tækninni höfum við brúað bilið til staða sem áður voru fjarlægir en um leið fjarlægst náttúruna sem umlykur okkur hér og nú. Þrátt fyrir allar þessar tækniframfarir stöndum við frammi fyrir vandamálum sem aldrei hafa verið alvarlegri og má hugsanlega einmitt rekja til þessara framfara. Misskipting auðæfa hefur aldrei verið meiri og loftslagsbreytingar af mannavöldum ógna tilveru okkur á þessari plánetu. Hefur markmiðsrökvísi og einstaklingshyggja blindað sýn okkar? Erum við of upptekin af sjálfum okkur að við sjáum ekki stóru myndina? Hvernig færum við athygli okkar að því sem skiptir raunverulega máli? Hvernig ,,hámörkum“ við færni okkar og okkur sem manneskjur? Í þessari ritgerð ætla ég að líta á tvö hugtök sem reyna að svara því og bera þau saman. Ég mun skoða hvort það sé grundvallarmunur á vestrænni og austrænni hugsun þegar kemur að ,,hámörkun“ í sögulegu samhengi og hvað við vestrænir íbúar getum lært af daóisma