Viðhorf og fiskneysla ungs fólks. Bætt ímynd sjávarafurða

Abstract

Markmið verkefnisins var að afla upplýsinga um fiskneyslu ungs fólks og viðhorf þeirra til fisksins. Tilgangurinn var að leita leiða sem gætu stuðlað að bættri ímynd sjávarafurða meðal ungs fólks og aukið neyslu þeirra á þessum afurðum í samræmi við næringarfræðilegar ráðleggingar og þannig mögulega haft áhrif á þau sjálf og næstu kynslóð. Verkefnið skiptist í sjö verkþætti (VÞ). VÞ-1 Rýnihópavinna með ungu fólki; VÞ-2 Viðtöl við starfsfólk og eigendur fiskbúða og veitingahúsa; VÞ-3 Þróun viðhorfs- og neylsukönnunar; VÞ-4 Viðhorfs- og neylsukönnun lögð fyrir landsúrtak af ungu fólki á aldrinum 17 til 26 ára; VÞ-5 Úrvinnsla gagna úr viðhorfs- og neylsukönnun; VÞ-6 Íhlutunarrannsókn,VÞ-7 Úrvinnsla gagna úr íhlutunarrannsókn. Höfundur þessarar MS ritgerðar vann að öllum verkþáttum. Hugmyndafræðileg vinna var í samstarfi við Matís ohf., Rannsóknastofu í næringarfræði, Háskóla Íslands, og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, sem einnig unnu að framkvæmd, úrvinnslu og túlkun rannsóknanna. Myndaðir voru rýnihópar ungs fólks á aldrinum 17 til 26 ára til að fjalla um fiskneyslu. Viðhorfsog neyslukönnun var þróuð út frá niðurstöðum vinnu við rýnihópa (Harðardóttir og Jónsson, 2005), viðtöl við fisksala og veitingamenn (Einarsdóttir og fleiri, 2006), neyslukönnun sem Rannsóknastofa í næringarfræði gerði (Þórsdóttir, 2004), ásamt rannsókn úr SEAFOODplus (2007a) og spurningum úr evrópskri viðhorfskönnun á vegum SEAFOODplus (2007b). Viðhorfsog neyslukönnuninni var svarað af alls 1735 einstaklingum (87% svörun) á aldrinum 17 til 26 ára. Íhlutun var gerð í Menntaskólanum á Akureyri og Verkmenntaskólanum á Akureyri og viðhorfsog neyslukönnun var lögð fyrir fyrir íhlutun haustið 2006 (n=225, 75%) og eftir íhlutun vorið 2007 (n=220, 73%) meðal 16-20 ára nemenda. Úrvinnsla gagna var unnin í tölfræðiforritinu SPSS og Unscrambler®. Úrvinnsla gagna úr viðhorfs- og neyslukönnun sýndi að matarvenjur í æsku hafa mótandi áhrif á fiskneyslu unga fólksins. Einnig hefur búseta annars vegar á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni sem og búseta erlendis á unga aldri áhrif á matarvenjur þess. Það að hafa verið alin upp við fiskneyslu virtist hafa jákvæð áhrif á neysluvenjur þeirra. Einnig kom fram að sá hluti þessa fólks sem farið var að heiman borðaði minnst af fiski, eða um 1,2 sinnum í viku miðað við það fólk sem bjó í foreldrahúsum sem borðaði fisk 1,3 sinnum í viku. Að meðaltali borðaði unga fólkið á aldrinum 17 til 26 ára fisk sem aðalrétt 1,3 sinnum í viku eða um það bil fimm sinnum í ii mánuði sem er töluvert undir því sem ráðlagt er, sem er tvisvar í viku eða oftar. Þeir sem búa á landsbyggðinni hafa ekki eins góðan aðgang að tilbúnum fiskréttum og höfuðborgarbúar og borðuðu þau frekar hefðbundna fisktegundir og rétti. Kynbundinn munur var þó nokkur í viðhorfum og svöruðu karlmenn að þeir væru minna fyrir hollan mat, fisk, grænmeti og pastarétti en væru hins vegar meira fyrir kjöt og skyndibita en konur. Konur voru meira fyrir fisk og nutu matarins betur með fiski heldur en án hans. Þær voru samt almennt minna fyrir mat en fannst meira gaman að elda mat. Fjölskyldan er sterkur áhrifavaldur varðandi fiskneyslu. Unga fólkið treystir upplýsingum frá sínum nánustu og af þeim ástæðum er mikilvægt að foreldrar taki virkari þátt í því að fræða og kynna fiskinn fyrir börnum sínum ásamt því að fá skólakerfið til að auka fræðsluna um fiskinn og ítreka mikilvægi góðs mataræðis. Upplýsingar sem unga fólkið fær, kemur að töluverðu leyti af netinu og fjölmiðlum. Þetta þyrfti vísindafólk að nýta sér í meira mæli við að koma upplýsingum á framfæri sem eiga erindi til almennings því að unga fólkið treystir upplýsingum þessa fólks. Ef markaðssetja á fiskafurðir fyrir þennan aldurshóp eða auka fiskneyslu þeirra ber að hafa í huga að mikilvægt er fyrir unga fólkið að fiskmáltíðin taki mið af kröfum þeirra. Smekkur þeirra er misjafn eins og niðurstöðurnar gáfu til kynna og ef höfða á til allra þarf úrval fiskrétta að vera fjölbreytt. Auðvelda mætti einnig aðgang að góðum uppskriftum fyrir fiskrétti, t.d. á netinu þar sem unga fólkið notar þann miðil mest. Íhlutun sem fól í sér aukið aðgengi að fiski gegnum skólamötuneyti, opna fræðslufyrirlestra og kynningu á vefnum skilaði betri þekkingu á fisknum og lýsisneyslan jókst um nær helming og meir hjá stúlkum en strákum. Viðhorf nemenda til fisks varð neikvæðara eftir íhlutun en þrátt fyrir það minnkaði fiskneysla þeirra ekki eftir íhlutun. Þeim sem ekki voru fyrir fisk fyrir íhlutun geðjaðist betur að honum eftir íhlutun. Þessi niðurstaða undirstrikar það að íhlutunin skilaði sér til nemendana. Fanney Þórsdóttir ofl. (2008) skoðuðu niðurstöður þessarar rannsóknar út frá m.a. kenningu Ajzen og Fishbein (1980) um að þekking hefur áhrif á viðhorf og viðhorf mótar síðan hegðunina. Niðurstöðurnar sýndu að beint samband var á milli viðhorfs og fiskneyslu, þ.e. viðhorf spáir fyrir um fiskneysluna, ásamt því að fiskneysla í æsku virðist vera mikilvægur þáttur í að móta viðhorf ungs fólks til fiskneyslu. Því má ætla að viðhorf foreldra skipti miklu máli og mikilvægt sé að ná til þeirra með fræðslu ásamt framkvæmd íhlutandi aðgerða í skólum og í leikskólum

    Similar works

    Full text

    thumbnail-image

    Available Versions