GAD-7 er sjö atriða sjálfsmatslisti sem ætlað er að skima fyrir almennri kvíðaröskun og meta alvarleika kvíðaeinkenna. Erlendis hefur verið sýnt fram á góðan innri áreiðanleika listans en þáttabygging hans hefur reynst óstöðug og sértækni léleg. Markmið rannsóknarinnar var að kanna próffræðilega eiginleika íslenskrar þýðingar GAD-7 í fyrsta skipti. Var innri áreiðanleiki og þáttaformgerð skoðuð í klínísku úrtaki með tölfræðiaðgerðum sem henta gögnum sem mæld eru á raðkvarða. Niðurstöður sýndu fram á góðan innri áreiðanleika mælinganna en lágt meðaltal heildarskora og lágt hlutfall skimunar í áhættuhóp miðað við tegund úrtaks. Auk þess kom fram skýr eins þáttar formgerð sem styður við réttmæti listans. Þáttagreining sýndi fram á framúrskarandi niðurstöðu fyrstu fjögurra atriða listans en niðurstöður voru áberandi verri fyrir síðustu þrjú atriðin. Bendir þetta til þess að seinni atriðin virki ekki sem skyldi í íslenskri þýðingu GAD-7. Þessi atriði voru skoðuð nánar og lagðar fram tillögur um mögulegar lagfæringar á þeim, en rannsóknin sýnir að íslensk þýðing listans krefst frekari rannsókna og úrbóta. Auk þess var sýnt fram á mikilvægi þess að kanna próffræðilega eiginleika þýddra mælitækja áður en þau eru tekin í notkun