Leyndarmálið hennar ömmu : byrjendalæsi

Abstract

Lestur þróast hratt fyrstu tvö árin í grunnskóla. Hljóðkerfisvitund barna styrkist við það að tengja stafi og hljóð og að loknum tveimur árum eiga flestir nemendur að hafa náð fullu valdi á umskráningu og eiga að geta lesið á sæmilegum hraða tiltölulega fyrirhafnarlítið eða án umhugsunar. Eftir því sem minni orka fer í umskráningu verður hlutverk málskilnings í þróun lesskilnings mikilvægari. Börnin eru orðin færari í að skrifa og ritunarverkefni þeirra geta verið viðameiri og flóknari en áður. Byrjendalæsi er heillandi aðferð í lestrarkennslu barna á yngsta stigi grunnskólans. Aðferðin er fjölbreytt og skemmtileg og býður upp á sveigjanleika í kennsluumhverfinu. Aðferðin miðast við að rækta fjölbreytta vinnu með texta allt frá byrjun í fyrsta bekk. Valinn er gæðatexti til umfjöllunar í hverri lotu og orðin í honum lögð til grundvallar allri vinnu með hljóð, atkvæði, orð og lesskilning. Textinn hverju sinni þarf að vera vitsmunalega við hæfi barnanna og höfða til áhuga þeirra. Minna er lagt upp úr að sagan sé auðveld aflestrar fyrir þá sem eru stutt komnir í lestri, en hins vegar eru valin einföld orð til að vinna með, lesa, skrifa og greina. Kennsluverkefnið er hugsað fyrir nemendur í þriðja bekk í grunnskóla, nemendur sem nú þegar eru farnir að lesa. Tilgangur verkefnisins er því aðallega að þjálfa nemendur í lesskilningi og lesfimi þar sem þau hafa flest náð valdi á umskráningu og geta sjálf lesið texta sem höfða til vitsmuna þeirra og áhuga. Verkefnið leggur upp með að allir nemendur bekkjarins geti notið sín og tekið þátt, bæði í þeim verkefnum sem lúta að einstaklingnum og verkefnum sem reyna á hópastarf

    Similar works

    Full text

    thumbnail-image

    Available Versions