Þetta verkefni fjallar um samninga þá sem Vegagerðin gerði fyrir hönd Innanríkisráðuneytisins við landshlutasamtök sveitarfélaga um almenningsakstur á landsbyggðinni.
Markmið rannsóknarinnar er að greina hvort Innanríkisráðuneytið hafi náð þeim markmiðum sem sett voru í samninga við landshlutasamtök sveitarfélaganna. Rannsóknin var unnin sem tilviksrannsókn (e. Exploratory). Um er að ræða blandaða rannsóknaraðferð. Samningum Vegagerðarinnar og landshlutasamtakanna var safnað saman og þeir bornir saman auk þess sem spurningakönnun var send út til hlutaðeigandi aðila. Spurningakönnunin var send á öll landshlutasamtökin og er þar með þýðisrannsókn. Að auki voru tekin viðtöl við lykilaðila.
Í rannsókninni voru markmið samninga Vegagerðarinnar og landshlutasamtakanna grunnur rannsóknarspurningarinnar en spurt var hvernig tilfærsla almenningssamgangna frá ríki til landshlutasamtaka hafi tekist með þeim samningum sem ríkivaldið gerði við landshlutasamtök sveitarfélaga. Leitast var við að svara því hvort markið samninganna hefðu náðst í lok samningstíma.
Með réttu er hægt að segja að tilfærsla á almenningssamgöngum til landshlutasamtaka sveitarfélaganna hafi ekki gengið sem skyldi þó einhverjir þættir hafi verið viðunandi. Náðst hefur að nokkru leyti að búa til heildstætt samgöngukerfi sem þjónustar landsvæði þar sem flestir íbúar landsins búa og vinna. Íbúar landshlutanna eru almennt ánægðir með þjónustuna og landshlutanir hafa meiri tækifæri til að bregðast við kröfum og þörfum íbúa sinna.
Sé það vilji samningsaðila að endurnýja samningana sem renna út um áramótin 2018-2019 er mikilvægt að endurskoða lagaumhverfið svo hægt sé að tryggja einkaleyfi landshlutasamtakanna. Mikilvægt er að nýir samningar innihaldi skýrari markmið og mælikvarða. Kostnaðarmeta þarf verkefnið og tryggja að samningsaðilar sitji ekki uppi með fjárhagslegar byrðar í lok samningstíma.
Lykilhugtök: Almenningssamgöngur, nýskipan í ríkisrekstri, Vegagerðin, landshlutasamtök, einkaleyfi