Women's perception of pelvic floor muscle contraction and the association with pelvic floor muscle strength, midterm and after first childbirth

Abstract

Bakgrunnur: Stór hluti kvenna glímir við vanvirkni grindarbotns sem hefur neikvæð áhrif á athafnagetu þeirra og tækifæri til þátttöku. Tíðni þessa vanda eykst mjög á meðgöngu og eftir fæðingu vegna þeirra breytinga sem verða á kvenlíkamanum. Niðurstöður rannsókna sýna að meðferð sjúkraþjálfara getur minnkað einkenni frá grindarbotni og þannig haft jákvæð áhrif á daglegt líf kvenna. Markmið: Í fyrsta lagi að rannsaka hvort munur væri á vöðvastyrk grindarbotnsvöðva og upplifun kvenna á samdrætti þeirra, fyrir og eftir fyrstu fæðingu. Í öðru lagi að skoða hvort fylgni væri milli styrks og upplifunar á samdrætti annars vegar fyrir fæðingu og hins vegar eftir fæðingu. Í þriðja lagi að meta hvort breyting væri á hlutfalli kvenna sem stunduðu grindarbotnsæfingar á meðgöngu miðað við eftir fæðingu. Í fjórða lagi að kortleggja hversu stórt hlutfall kvenna taldi sig spenna aðra vöðva með grindarbotnssamdrætti á miðri meðgöngu og eftir fæðingu. Aðferð: Rannsóknin var unnin úr fyrirliggjandi gögnum úr framskyggnri áhorfsathugun með endurteknum mælingum. Gagnaöflun fór fram á tímabilinu 2007 til 2008. Alls luku 36 heilbrigðar frumbyrjur á aldrinum 19-39 ára þátttöku í rannsókninni. Konurnar fylltu út spurningalista á miðri meðgöngu og 6-12 vikum eftir fæðingu. Styrkur grindarbotnsvöðva var mældur með Myomed 932®. Þau tölfræðipróf sem notast var við í greiningu gagna voru parað t-próf, Friedman próf, Spearman fylgnistuðull (rs) og McNemar próf. Niðurstöður: Styrkur grindarbotnsvöðva minnkaði (p<0,0001) eftir fyrstu fæðingu miðað við á miðri meðgöngu en sjálfsmat kvennanna á upplifun á samdrætti grindarbotnsvöðva breyttist ekki (p=0,157). Það fannst ekki marktæk fylgni á milli styrkmælinga og sjálfsmats á upplifun á samdrætti grindarbotnsvöðva og ekki var munur á fylgni fyrir (rs=0,05) og eftir fæðingu (rs=0,538). Fleiri konur gerðu grindarbotnsæfingar eftir fæðingu (94%) miðað við á miðri meðgöngu (67%) (p=0,0039) og hlutfall þeirra sem fannst aðrir vöðvar spennast með grindarbotnssamdrætti var 53% á miðri meðgöngu og 58% 6-12 vikum eftir fæðingu. Ályktun: Niðurstöður þessa verkefnis benda til þess að sjálfsmat kvenna á samdrætti grindarbotnsvöðvanna gefi ekki réttmæta mynd af virkni þeirra. Það undirstrikar hversu mikilvægt það er að finna leiðir til að efla og virkja líkamsvitund kvenna í tengslum við samdrátt grindarbotnsvöðvanna, með það markmið að fyrirbyggja og meðhöndla vanvirkni grindarbotns. Einnig er þörf á að þróa aðferð til að miðla þekkingu og fræðslu um grindarbotnsæfingar ásamt kennslu í réttri framkvæmd þeirra, í forvarnarskyni og til að efla lýðheilsu. Þar eru sjúkraþjálfarar í leiðandi hlutverki vegna sérfræðiþekkingar sinnar í hreyfingu og hreyfistjórn

    Similar works

    Full text

    thumbnail-image

    Available Versions