Samanburður HEp-2000 fruma við fyrirliggjandi kjarnamótefna rannsóknaraðferðir á ónæmisfræðideild LSH

Abstract

Sjálfsofnæmissjúkdómar hrjá 5-8% fólks í heiminum og eru mun algengari hjá konum en körlum. Margir þeirra hafa sterk tengsl við sjálfsofnæmismótefni sem eru ekki vefjasértæk og beinast því gegn sameindum sem finnast meira og minna í öllum frumum líkamans, þar á meðal kjarnaþáttum. Dæmi um þessa sjúkdóma eru rauðir úlfar, blandaður bandvefsjúkdómur, Sjögrens heilkenni og herslismein. ANA-kjarnamótefnaskimpróf er óbeint flúrskinspróf sem er notað til að skima fyrir sjálfsofnæmismótefnum sem beinast gegn kjarnaþáttum og geta niðurstöður hjálpað til við sjúkdómsgreiningu. Í upphafi voru ANA-kjarnamótefnaskimpróf framkvæmd á nagdýravef. Á síðast liðnum tveim áratugum hefur nagdýravefnum verið skipt út á flest öllum rannsóknarstofum í heiminum fyrir HEp2 og HEp-2000 frumur en á ónæmsifræðideild LSH er ennþá notaður nagdýravefur. Sýnin eru metin með tilliti til styrks mótefna í sermi og mynsturs í flúrskinssmásjá en mynstur geta gefið vísbendingar um ákveðin sjálfsofnæmismótefni. Ef sýni eru jákvæð í ANA-kjarnamótefnaskimprófi eru framkvæmdar ENA mótefnamælingar til nánari greiningar á kjarnaþáttum. Markmið rannsóknarinnar var að bera saman ANA-kjarnamótefnaskimpróf á nagdýravef og HEp-2000 frumum, skoða mynstursgreiningu á HEp-2000 frumum miðað við nagdýravef, bera niðurstöður ANA-kjarnamótefnaskimprófa saman við fyrirliggjandi ENA mótefnamælingar og skoða samband sjálfsofnæmismótefna við ákveðna sjálfsofnæmissjúkdóma. 195 sjúklingasýni af gigtar- og ónæmisfræðideildum LSH sem áður höfðu verið sett upp á nagdýravef voru sett upp á HEp-2000 frumum og niðurstöður bornar saman. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að noktun á nagdýravef sem undirlag í ANA-kjarnamótefnaskimprófi er sambærilegt við notkun á HEp-2000 frumum. Tengsl eru á milli mynstra í ANA-kjarnamótefnaskimprófi og ákveðinna sjálfsofnæmismótefna í ENA mótefnamælingum. Niðurstöður sýna fram á að ANA-kjarnamótefnaskimpróf er mikilvægt skimpróf til stuðnings við sjúkdómsgreiningu. Samkvæmt niðurstöðum þessarar rannsóknar er ekkert því til fyrirstöðu að halda áfram að framkvæma ANA-kjarnamótefnaskimpróf á nagdýravef á ónæmisfræðideild LSH

    Similar works

    Full text

    thumbnail-image

    Available Versions