Orðaforði barna með málþroskaröskun. Þjálfun með sögulestri

Abstract

Börn með málþroskaröskun er fjölbreyttur hópur sem á það þó sameiginlegt að glíma við vandamál tengd tungumálinu. Einstaklingar greinast með málþroskaröskun ef þeir ná ekki tökum á tungumálinu á eðlilegan hátt í samspili við umhverfið án þess að þekktar taugafræðilegar, vitsmunalegar eða tilfinningalegar orsakir liggi fyrir því. Samkvæmt erlendum rannsóknum er algengi málþroskaröskunar hjá börnum talið vera um 7%. Ef sú tala er heimfærð yfir á íslenskt samfélag má gera ráð fyrir að um 300 börn í hverjum árgangi glími við málþroskaröskun. Einkenni hennar eru margvísleg, svo sem vandamál við að tileinka sér og beita málfræðireglum, setningamyndun og notkun málsins. Þá er eitt megineinkenni slakur orðaforði. Börn með málþroskaröskun hafa einsleitari orðaforða en jafnaldrar, þekkja færri orð og nota einfaldara mál svo dæmi sé tekið. Þetta getur haft víðtæk áhrif á lesskilning og námsárangur seinna meir. Markmið þessarar rannsóknar var að auka orðaforða hjá tveimur börnum með málþroskaröskun með ákveðnu inngripi. Börnin voru í elsta árgangi í leikskóla. Inngripið byggðist á því að lesa sögubók og annars vegar útskýra orð með beinni útskýringu um leið og þau komu fyrir í textanum og hins vegar með því að beita óbeinni kennslu þar sem bókin var lesin í gegn án þess að staldra nokkuð við ákveðin orð. Einliðasnið var notað og fór þjálfunin fram fjórum sinnum í viku í sex vikur. Mælingar voru gerðar fyrir þjálfun, á meðan þjálfun stóð, strax að lokinni þjálfun og loks mánuði eftir að þjálfun lauk. Niðurstöður leiddu í ljós að góður árangur náðist með þann orðaforða sem kenndur var með beinni kennslu. Þegar óbeinni kennslu var beitt jókst orðaforði barnanna hins vegar mun minna. Mælingar sem gerðar voru mánuði eftir íhlutun sýndu að sú þekking sem börnin höfðu tileinkað sér að lokinni íhlutun viðhélst ekki að fullu. Orðaforðaþjálfun af þessu tagi hafði ekki áhrif á færni í almennri máltjáningu eins og hún er mæld með málsýnum eða á heildarfjölda orða, fjölda mismunandi orða og meðallengd segða. Hins vegar fækkaði villum í sjálfsprottnu tali. Í stuttu máli þá hafði orðaforðakennsla með beinni kennslu jákvæð áhrif á þau orð sem kennd voru en máltjáning barnanna í sjálfsprottnu tali breyttist ekki. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna mikilvægi þess að lesa fyrir leikskólabörn og skapa skemmtilega og notalega stund þar sem markvisst er verið að leggja inn orð. Hún sýnir einnig mikilvægi þess að hlúa sérstaklega vel að börnum með slakan málþroska og auðvelda þeim sögulestur með því að útskýra orð fyrir þeim jafnóðum. Þessar niðurstöður má nýta á margan hátt, t.d. fyrir foreldra, kennara og talmeinafræðinga

    Similar works

    Full text

    thumbnail-image

    Available Versions