Ungir hjúkrunarfræðingar eru starfshópur sem vert er að gefa gaum. Hann samanstendur af dugmiklum og tæknisinnuðum einstaklingum sem hafa metnað fyrir starfi sínu og fagmennsku að leiðarljósi. Þessir einstaklingar hafa í ríkara mæli staðið á rétti sínum og vilja sanngjörn kjör fyrir vinnu sína. Þessi ritgerð fjallar um viðhorf ungra hjúkrunarfræðinga, svokallaðrar Y-kynslóðar sem eru einstaklingar fæddir árið 1980 og síðar, til launa og kjarabaráttu. Um er að ræða bæði megindlega og eigindlega rannsókn. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) aðstoðaði við framkvæmd spurningakönnunar. Einnig voru fengnir tveir hjúkrunarfræðingar úr úrtakshóp til að rýna í niðurstöður. Til að styðja fræðilega við rannsóknarniðurstöður eru erlendar og innlendar rannsóknir sem og greinar og önnur gögn sem tengjast ungum hjúkrunarfræðingum, launum og kjarabaráttu og viðhorfum hjúkrunarfræðinga til þeirra skoðuð. Helstu niðurstöður eru þær að ungir hjúkrunarfræðingar eru mjög óánægðir með launakjör sín og samanburð á launum við aðrar háskólamenntaðar stéttir. Samt sem áður ríkir þó nokkur starfsánægja, áhugi á frekari menntun innan hjúkrunarfræða er töluverður og nokkuð stór hópur hefur áhuga á að starfa við hjúkrun erlendis á næstu fimm árum. Ungir hjúkrunarfræðingar hafa samkvæmt könnuninni ekki mikinn áhuga á kjarabaráttu, eru frekar óánægðir með vinnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga í kjaramálum og telja verkföll og uppsagnir góðan kost til að fá leiðréttingu á sínum kjörum. Niðurstöður þessarar rannsóknar ættu að gefa stjórnendum í heilbrigðisgeira og stéttarfélagi hjúkrunarfræðinga vísbendingar um viðhorf ungra hjúkrunarfræðinga til launa og kjarabaráttu