Eflandi fræðsla sjúklinga sem fara í gerviliðaaðgerð : samanburður á væntri og fenginni fræðslu og áhrif á heilsutengd lífsgæði

Abstract

Verkefnið er lokað til 1.6.2017.Með hækkandi meðalaldri þjóðarinnar fjölgar gerviliðaaðgerðum á mjöðm og hné. Þar sem tilhneiging er til að stytta legutíma sjúklinga þarf að huga vel að fræðslunni. Sjúklingar þurfa að fá viðeigandi fræðslu til að takast á við slitgigt og aðgerð. Ekki hafði verið gerð rannsókn á væntingum íslenskra sjúklinga til fræðslu eða fenginni fræðslu þeirra í tengslum við þessar aðgerðir. Fjölþjóðleg rannsókn á sjúklingafræðslu undir stjórn finnskra fræðimanna var framkvæmd á Íslandi og er þessi rannsókn afrakstur hennar. Markmið rannsóknarinnar var að skoða eflandi fræðslu sjúklinga sem fóru í skipulagða gerviliðaaðgerð á mjöðm eða hné. Væntingar til fræðslu og fengin fræðsla voru borin saman til að öðlast vitneskju um hvernig væntingum hafi verið mætt. Skoðaðar voru bakgrunnsbreytur líkt og aldur, kyn, menntun, sjúkrahús og hvort farið hafði verið í aðgerð áður. Athugað var hvort þessi atriði væru áhrifaþættir á fengna fræðslu. Loks var metið hvort fengin fræðsla hefði tengsl við heilsutengd lífsgæði sjúklinga. Aðferð lýsandi framvirkrar samanburðarrannsóknar var notuð. Gögnum var safnað með tveimur þýddum og staðfærðum spurningalistum. Spurningalistar um væntingar til fræðslu (EKHP) og fengna fræðslu (RKHP) voru lagðir fyrir alla sjúklinga sem fóru í gerviliðaaðgerð á mjöðm eða hné á tilteknu tímabili og unnið úr þeim hluta þar sem sjúklingarnir svöruðu báðum listunum (N= 215). Heilsutengd lífsgæði voru metin af sjúklingum með 5 spurningum (EQ-5D) og með því að merkja á kvarða yfir heilsu (EQvas). Unnið var með lýsandi og ályktunartölfræði. Helstu niðurstöður voru að ekki tókst að uppfylla væntingar sjúklinga til fræðslu. Best tókst að uppfylla væntingar á lífeðlisfræðilega þekkingarsviðinu og varðandi færni. Ekki komu fram tengsl bakgrunnsbreyta við fengna fræðslu. Samband var á milli fenginnar fræðslu og heilsutengdra lífsgæða. Helsta ályktunin sem dregin varð af niðurstöðum rannsóknarinnar var að bæta þarf innihald sjúklingafræðslu þeirra sem fara í gerviliðaaðgerð á mjöðm eða hné. Lykilorð: Væntingar til fræðslu, fengin fræðsla, efling, gerviliðaaðgerð, heilsutengd lífsgæði.Félag íslenskra hjúkrunarfræðing

    Similar works

    Full text

    thumbnail-image

    Available Versions