research

Erfðamengisbreytingar í ættlægum B-eitilfrumumeinum

Abstract

Efst á síðunni er hægt að nálgast greinina í heild sinni með því að smella á hlekkinnEinstofna mótefnahækkun (Monoclonal Gammopathy, MG) orsakast af afbrigðilegri fjölgun og þroskun eins stofns af B-eitilfrumum sem framleiða einstofna ónæmisglóbúlín. Mótefnahækkun án einkenna illkynja sjúkdóms (Monoclonal Gammopathy of Unknown Significance, MGUS) getur þróast í illkynja mergæxli (Multiple Myeloma, MM). Waldenström’s macróglóbúlínemía er illkynja B-eitilfrumusjúkdómur sem þróast út frá forstigs B-eitilfrumu. Lýst hefur verið ættlægri tilhneigingu til MG í yfir 130 fjölskyldum um allan heim. Ofursvarandi B-eitilfrumur hafa fundist í 12 heilbrigðum nánum ættingjum sjúklinga með MM eða MGUS. B-eitilfrumurnar framleiddu marktækt meira ónæmisglóbúlín en Beitilfrumur viðmiða eftir mítógenörvun in vitro. Þær lifðu einnig lengur í Poke-weed rækt en frumur viðmiða. Tilgangur verkefnisins var að framkvæma víðtæka samanburðargreiningu erfðamengja á örflögu (array-CGH) þar sem skimað yrði fyrir genamengisbreytingum í Beitilfrumum ofursvara og bera saman við skyld og óskyld heilbrigð viðmið. Efni og aðferðir: Array-CGH var gert á einangruðu DNA úr B-eitilfrumum og borið saman við DNA kornfrumna (granúlócýta) úr hverjum einstaklingi. Notaðar voru 12 sýna örflögur með 135.000 þreifurum sem dreifast um allt erfðamengi mannsins. Niðurstöður: Samanburðargreining á örflögu sýndi breytingar á svæðum ónæmisglóbúlína eins og við var að búast. Viðbætur og úrfellingar í B-eitilfrumum miðað við kornfrumur sáust dreift um allt erfðamengið. Marktækt færri viðbætur voru í ofursvörum miðað við viðmið á 8 litningum. Sá breytileiki sem greinist með samanburðargreiningu er að öllum líkindum tengdur erfðaefnisbreytingum vegna sækniþroskunar og flokkaskipta. Minni almennur breytileiki hjá ofursvörum getur mögulega verið tilkomin vegna þess að B-eitilfrumur ofursvara taki í minni mæli út þroska í kímstöð en eðlilegt er og hafi því minni tíma til punktstökkbreytinga

    Similar works