Talið er að það sé mikilvægur hluti af þroskaferli einstaklings á síðari hluta lífsskeiðs að sætta sig við eigin lífsreynslu í heild sinni þegar dauðinn nálgast. Spurningar um arfleifð, áhrif og merkingu lífsins gera þá gjarnan vart við sig. Einstaklingur sem er sáttur með tilvist sína er líklegri til þess að hafa góða trú á því sem hann kemur til með að skilja eftir sig og miðla til komandi kynslóða
Eftirfarandi rannsókn snýr að því að skilgreina hvað felst í túlkun hugtaksins arfleifð og skoða skörun hugmynda hjá sex íslenskum viðmælendum. Með því að skoða sameiginlegan skilning á hugtakinu er gefin ákveðin hugmynd að mögulegum kynslóðaarfi. Viðmælendur eru þrjú pör samansett af foreldri og afkvæmi af sitthvorri kynslóð innan sömu fjölskyldu. Niðurstöður rannsóknar bentu til þess að viðmælendur væru áhugasamir um rannsóknarefnið og spáðu í flestum tilvikum meiri skörun á hugmyndum um kynslóðaarf en reyndist. Algengust voru einstök dæmi um arfleifð foreldris, ekki sameiginleg. Foreldrar og afkomendur sem tóku þátt í þessari rannsókn voru að mörgu leyti með sambærilegan skilning á hugtakinu arfleifð, greina mátti þó meiri líkindi milli foreldra sem tóku þátt í rannsókninni og sömuleiðis milli afkomenda sem tóku þátt. Í flestum tilvikum komu afkomendur með fleiri dæmi um arfleifð foreldris. Langflest dæmi um arfleifð (45%) tengdust gildum. Þátttakendur greindu í öllum viðtölum frá því að þeir hefðu aukinn skilning á hugtakinu eftir viðtalið og greindu frá aukinni áhugahvöt til frekari íhugunar um þetta efni. Gögnin benda til þess, að jafnvel í nánustu samböndum, séu viðhorf til arfleifðar foreldris mismunandi og rými er til þess að auka gagnkvæman skilning milli foreldra og afkomenda.
Rannsóknir sem geta ýtt undir skilning á tengslum innan fjölskyldna og milli kynslóða, geta opnað dýrmæt tækifæri til að þróa og bæta þjónustu við einstaklinga, fjölskyldur og samfélög. Líta má á rannsóknir á arfleifð og kynslóðaarfi sem nýtt sjónarhorn til að skoða hvað það er sem fólk af ólíkum kynslóðum metur mikils. Ávinningur fyrir þátttakendur í viðtalsrannsókn sem þessari er meðal annars aukinn persónulegur skilningur og efling tengsla.
Lykilorð: kynslóð, arfur, kynslóðaarfur, fjölskylda, aldraði